frá Jökulhvörf

Kári Tulinius

Ævi hringast um endalokin

Þegar snjóflóðið ryður burt
húsinu og henni með
hættir tíminn að líða
og verður að kristöllum

Fortíð nútíð og framtíð
verða að einni svipan
fjall sem heitir þremur
nöfnum í einum firði

Í tíma hennar myndast
lítil manneskja í legvatni
sem vaknar þegar höggbylgjan
skellur á sofandi líkamanum

Hún sér þessa manneskju
þegar augu hennar opnast
eftir að snjófljóðið stöðvast
og þegar hún fæðist




Horft til Snæfellsjökuls úr kyrrstæðum strætó

Rakt pappírsrifrildi loðir við himininn
ég fletti Snæfellsjökli af rúðunni
og 11 punkta hjá mér það sem ég
hefði átt að segja við þig

1) undir gljáspegilsléttu yfirborði
er grjót sem er grjót
2) snjór bráðnar
verð fell sem er fell

Snæfellsjökli verður fleygt í ruslatunnu
mun brotna niður innan um bananahýði
pappamál gosdósir nammiumbúðir
úrgang sem er úrgangur

3) ljóð skjalfesta landslag
tilfinningar rotna




Snjóhljóð

  Snjókorn bráðna í
blauta mold næturþögnin
  hverfur í hlátur




Hvörf Snæfellsjökuls

Mars

Segl sem siglir án skips
og bólgnar í hviðum
byrs sem lemur himininn
og kæfir grænt hafið
ást sekkur
ást brotnar
nei
ást hverfur í skýjunum
og brotnar


Apríl

Tveir þríhyrningar
annar ofan á eða innan í hinum
en hliðrað um nokkra sentimetra
tveir toppar
lína sem sveigist niður á við
er dregin á milli
aðeins gegnum óreiðu
sjást formin skýrt
hafið er lárétt lína sem skilur
milli ástar og ástar og tíma


Maí

Könguló nálgast aðra
fetar sig eftir ókunnum þræði
í átt að miðjum vefnum
elskhugi bíður hreyfingarlaus
á sjóndeildarhringnum
pörun hverfur í grábláma
skipt í haf og himin af hring
sem aðeins er til í augnbotni


Júní

Margfætla með spennta kryppu
skríður eftir laufblaði
fálmandi angar fara á undan
étur upp lífríkið kringum sig
skilur eftir sig ís og hraun og auðn
og ást með margfætlum innan í
sem bíða þess að klekjast út og éta
heiminn út að endimörkum
þess sem er séð


Júlí

Elskhugi skrúðgengur út
úr sofandi herbergi eins og rótlaust þang
á svifi langt frá þurrum ströndum
og lífvana klettum sem brotna á haföldum
áður en tíminn færir augastein úr stað
sem sér ekkert bara auðn
eigin augnhvítu


Ágúst

Augu eyru nef munnur á dýri
sefur étandi með augun hálflokuð
það opnar munninn og allt
tætist sundur og raunveruleikinn
er litleysa á fölbláum grunni
sem tyllir sér á sjóndeildarhringinn
eins og sólskríkja sem lýsist upp
þegar ástin nálgast í líki einskis
nema augna eyrna nefs munns


September

Kolkrabbi með útglennta arma
flýtur um í bláu gleri
hvorki er víst né óvíst
hvort dýrið sé spegilmynd
en kolkrabbinn er áhyggjulaus
og reigir aftur búkinn
svo skuggar falli á föla arma
sem faðma ástfangið glerið


Október

Hreifi rífur glugga
á himininn þegar hann
brýst gegnum yfirborð
sjávar og hverfur
Amorsbogi jökulsins
er flattur út í brosi
tunga sleikir skýin


Nóvember

Amorsboganum er miðað
örlítið fyrir ofan Reykjavík
ein ör til að hæfa heila borg
fjallahringurinn tennur
í hlæjandi munni
þúsund tungur og hundrað sinnum
þúsund tungur í einni borg
sem allar mætast í tveimur punktum


Desember

Glóandi sveigja þar sem mjóbak
verður að rassi
brekka í huganum
Amor rennir sér hraðar
hraðar niður fjallshlíð
sem hverfur inn í himin
skuggi við sjóndeildarhring
stækkar og leysist upp
skella á himninum
fægð í burtu


Janúar

Hvítur kjólfaldur hvítt slör
kóróna á höfði er varkár yfirlýsing
ástkonu í landslagsmynd
sem fellur inn í sjónsviðið
bak við innan í framan við
hinum megin við það
sem augað sér frá Reykjavík
skuggamyndir flytja skilaboð
bara í eina átt


Febrúar

Gráminn bak við landslagið
blæs burt í vindi
ástkona tekur ljósmynd af
umföðmuðu landslagi
vindur lyftir kjólfaldi
grípur slörið með sér og ber
í átt að skellu á himninum
sérðu haf já
sérðu fjöll já
sérðu jökulinn hverfa
já já alltaf já