Þrjú ljóð
Thórdís Helgadóttir
FASASKIPTI
Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín
Elska og börnin sem elska börnin mín.
Þau keyra kuldaskó í gegnum ísinn þegar
Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli.
Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að
Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt
Auga hússins. Þau sjá mig gegnum tært gler.
Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn
Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin
Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum.
Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima
Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr
Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela
Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð?
Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni
Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn
Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu
Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku,
Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar
Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.
Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul.
Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum.
Enginn elskar veturinn eins og börnin mín.
BABÚSKUR
Nýjustu rannsóknir í heimsfræði
á vegum stofnunarinnar sem ég
veiti forstöðu
leiða í ljós
að tíminn hafi byrjað
árið 1981
og aftur þrjátíu árum síðar
Miklahvell
man ég vel
mýþískan tíma
þegar risar gengu
og gulur broddur rann
Löngu áður en risaeðlur
röðuðu sér í hillur
flugu frumefni
um blóðrás
okkar beggja
óljós form
fylltu augu þín
Þú varst munnur
seinna minni
Móðir þín
utan heims
og utan um
VINDVERA
Þá læri ég að rata um húsið
brynni draumkonunni
og geri gull úr drullu
eins og mér er uppálagt
vef saman efa við örvæntingu
flétta rangsælis
eins og munkur
sem hefur misst trúna
en ekki augun eða hendurnar
eins og vinkona mín sagði
daginn sem hárið losnaði af höfðinu á henni
og féll á milli gólffjalanna
ég bíð vonlaus í búk
sem verpir ekki eggjum
heldur fæðir með sprengingu
og flóði frjórra vökva
neyðist til að rúmast á þessum beinum
þessum þéttu þungu beinum
holdið fer krókaleiðir
og syngur á siglingunni
en andinn ferðast á jöfnum hraða
í loftlínu
eftir sólarhring lendir hann
með gyllt stél
finnur mig í fjörunni, sólbakað grjót
og hneggjar
hneggjar og hlær
Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín
Elska og börnin sem elska börnin mín.
Þau keyra kuldaskó í gegnum ísinn þegar
Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli.
Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að
Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt
Auga hússins. Þau sjá mig gegnum tært gler.
Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn
Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin
Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum.
Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima
Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr
Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela
Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð?
Börnin en ekki ég treysta gljúpri himnunni
Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn
Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu
Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku,
Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar
Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.
Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul.
Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum.
Enginn elskar veturinn eins og börnin mín.
BABÚSKUR
Nýjustu rannsóknir í heimsfræði
á vegum stofnunarinnar sem ég
veiti forstöðu
leiða í ljós
að tíminn hafi byrjað
árið 1981
og aftur þrjátíu árum síðar
Miklahvell
man ég vel
mýþískan tíma
þegar risar gengu
og gulur broddur rann
Löngu áður en risaeðlur
röðuðu sér í hillur
flugu frumefni
um blóðrás
okkar beggja
óljós form
fylltu augu þín
Þú varst munnur
seinna minni
Móðir þín
utan heims
og utan um
VINDVERA
Þá læri ég að rata um húsið
brynni draumkonunni
og geri gull úr drullu
eins og mér er uppálagt
vef saman efa við örvæntingu
flétta rangsælis
eins og munkur
sem hefur misst trúna
en ekki augun eða hendurnar
eins og vinkona mín sagði
daginn sem hárið losnaði af höfðinu á henni
og féll á milli gólffjalanna
ég bíð vonlaus í búk
sem verpir ekki eggjum
heldur fæðir með sprengingu
og flóði frjórra vökva
neyðist til að rúmast á þessum beinum
þessum þéttu þungu beinum
holdið fer krókaleiðir
og syngur á siglingunni
en andinn ferðast á jöfnum hraða
í loftlínu
eftir sólarhring lendir hann
með gyllt stél
finnur mig í fjörunni, sólbakað grjót
og hneggjar
hneggjar og hlær