Gerpla
Halldór Laxness
Vermundur goði átti frænda þann er Bessi hét, hann var Halldórsson; hann bjó að Laugabóli, það er bæjarleið frá Vatnsfirði. Bessi var skáldmæltur maður og lögfróður, vinsæll af almenningi en lítill auðmaður. Með þeim Vermundi var góð vinátta með frændsemi; var Bessi oftlega í fylgd Vermundar í yfirferðum, og svo þá er hann reið til þings. Þá var látin kona Bessa er þessi saga er hafin, en son átti hann ungan, sá hét Þormóður; þótti sveinn snemma vel viti borinn, en nokkuð orðhvatur. Hann nam skáldskap og önnur vísindi að föður sínum og kunni ungur mörg fræði um konunga og jarla þá er mestir hafa verið dugandismenn til fólkvíga og annarra ágætra verka á Norðurlöndum, svo og af ásum, Völsungum, Ylfingum og þeim nafnfrægum hetjum er við tröllkonur glímdu; þá kunni og sveinninn margt um ástir þær hinar miklu er menn náðu að hafa af konum að upphafi heimsins, þá er Brynhildur svaf á fjallinu; enn vissi hann að segja frá svönum þeim er að sunnan flugu og á nesi settust, og lögðu frá sér hami sína og tóku að spinna mönnum. Hann kunni og þau býsnleg fræði er segja fyrir endalykt heimsbyggðar og ragnarök.
Þormóði Bessasyni þótti dauflegt heima að föður síns; vandi hann ungur komur sínar þangað sem nokkur gleði var höfð, slátur soðin eða brúðkaup gör eða erfi drukkin og jól haldin, svo og þar er menn voru í fiskiverum eða störfuðu annað saman fjölmennir. Var hann þá til fenginn að skemmta mönnum, því að á Vestfjörðum eru langir vetur og myrkur stór. Þormóður brá snemma á það ráð að yrkja sjálfur þar er kvæðaefni þraut; kunni hann í æsku svo vel að yrkja að menn fundu eigi mun á kvæðum hans og annarra skálda.
Í Vatnsfirði að Vermundar goða var í senn hjónmargt og þrælakostur góður; þangað sóttu og snauðir menn og sekir; orlofsmenn og gestir komu víðsvegar úr fjörðum að telja tölur sínar fyrir Vermundi og þiggja ráð að honum. Þormóður var snemma tíður gestur í Vatnsfirði, þótti honum þar skemmtilegra en heima á Laugabóli, var og aufúsugesturmörgu heimafólki Vermundar þó að hann hefði litlar viðurtektir af húsbóndum; hentu menn gaman að fræðum sveinsins í skála um síðkveldum.
Þar var komin á kynnisleit kona ein úr Jökulfjörðum, Kolbrún að nafni, ásamt dóttur sinni bernskri, er Geirríður hét. Kolbrún var kynjuð úr Noregi; hafði hún borist til Íslands með skipamönnum og ráðist til veturvistar að Vermundar ásamt bónda sínum er þar hafði verið stýrimaður á skipi. Austmaðurinn varð bráðdauður um veturinn, og ætluðu menn að Kolbrún hefði ráðið honum bana. Hún gerðist síðan tíðleikakona Vermundar eigi alllítil um skeið, en þá er goðinn fékk annarrar konu ungrar á gamals aldri, skildist hann við þessa og gaf henni staðfestu þar sem heitir í Hrafnsfirði; er sá fjörður einna eyðilegastur í Jökulfjörðum. Vermundur fékk Kolbrúnu verkþræl austrænan þann er Loðinn hét, að hafa í fylgd sinni; hann var garplegur maður og heldur fáskiptinn, hærður mjög og skeggjaður og loðbrýnn, og leit að jafnaði eigi hátt; en það þóttust nokkrir menn séð hafa að hann var fráneygur sem ormur ef til bar að hann léti upp augu sín. Þær mæðgur fóru jafnan um slægjur í Djúp að vitja fornra kynna, en Loðinn þræll gekk fyrir hestum þeirra. Hann varðveitti og sax gott, er húsfreyja átti; en það var venja hennar að hún tók saxið frá honum er þau komu í mannasoll. Kolbrún var svo kona að fáir voru hennar jafnokar í aflraunum, vaxin þrýstilega og þó vel í andliti, eygð kvenna best, dökk undir brún og þótti kona nokkuð grálynd ef henni líkaði verr, harðlynd við þá menn er henni voru eigi að skapi, en þó einkum ástmenn sína. Af þessum sökum urðu fleiri menn til að glensa við hana en biðja hennar, var og kona eigi fjárauðug.
Einhverju sinni hafði Þormóður þulið lengi fyrir mönnum að verkalokum í skála í Vatnsfirði, voru þar kvæði um ágæta konunga, frægar orustur og mörg drengileg mannvíg. En svo sem oft verður um síðkvöldum þótti mönnum mest til koma að heyra tíðindi af ástum þeim er menn náðu að hafa af skjaldmeyjum í forneskju.
Þá segir einn maður: firn mikil eru það, segir hann, er vér skulum jafnan heyra frá sagt því er Sigrún húsfreyja trað helveg að kyssa Helga ólifðan; ellegar þá er Freyja lagði lær yfir Loka; svo og það er Sigurður fann meyna sofa herklædda á fjallinu, og hafði ristið í skaut niður brynju hennar og sorðið hana áður hún vaknaði; en aldrei verður nýtu mansöngsstefi fram orpið um þær konur sem nú eru mestir skörungar hér um Vestfjörðu. Þætti mér betur hæfa að hlýða kvæði um það er mælt er, að Hrafnsfjarðarhúsfreyja leggi í sæng sína Loðin þræl tvisvar á hverjum misserum, hið fyrra sinn er níu nætur lifa vetrar og hrafnar hafa orpið, og hið síðara að úthallanda sumri, þá er menn hafa hirtar töður sínar.
Margir urðu til að taka þar undir, hver nauðsyn væri að yrkja um svo ágæta húsfreyju sem Kolbrún var hin hrafnfirska; en í þann tíð var skáldskapur mest vanvirða, sú er konum yrði gör, og kallað óhæfuverk að stefja á konu; áttu venslamenn konunnar vígt um málið.
Lítt kann eg til mansöngsgerðar, mælti Þormóður skáld, enda þarfleysa að gera konum hneisu að ósekju.
Skálabúar sögðu að eigi bar nauðsyn til að binda nafn konu í kvæði þótt ort væri, og mátti þó skiljast af.
Kolbrún húsfreyja úr Hrafnsfirði fnæsti við þessum orðræðum, kvað siðu þeirra karla einna að yrkja mansöngva, er eigi mættu nýtast konum með öðrum hætti.
Þormóður mælti: Það hefur sagt mér faðir minn Bessi Halldórsson, að eigi sómi hraustum dreng að yrkja um kvennaástir: eru slíkt kvæði ragmenna einna og dusilmenna þeirra er liggja í eldhúskrókum og sjúga skyrdúsu.
Nú lýkur umtali í skála að Vatnsfirði á því kveldi, og gengu menn til náða.
En á öðru kveldi, þá er menn höfðu snætt í skála, sté Þormóður fram og bað sér hljóðs, kvaðst þá ort hafa kvæði það um Kolbrúnu húsfreyju í Hrafnsfirði, er skálamenn báðust að honum fyrr.
Þá höfðu margir gleymt skopi því er verið hafði hið fyrra kvöld, og varð eigi aftur upp tekið með þeim hug sem þá, höfðu og búist seint til rekkna, sótti svefn á menn af lúa og skyrdrykkju. Þó urðu nokkrir menn til að hlýða kvæðinu, og var lengt nafn skáldsins og var kallaður Þormóður Kolbrúnarskáld. En konur sögðu að hann var þó meir verður hins að heita Kolrössuskáld, mundu þær og jafnan það heiti hafa heldur, er þær heyrði hans getið síðan. Eigi vitu menn framar glöggt hversu það kvæði var kveðið er Þormóður flutti konu þessari á ungum aldri, hefur það verið dregið út í flestum bókum ellegar skafið á brott, mun fyrrum mönnum nokkrum hafa þótt kvæði eigi með öllu við hæfi; líkara þykir og þar hafi meir verið af bernsklegum gáska skjalað en alvöru fulltíða karla, er af þeim rökum kveða, að þeir eru konu unnandi í meinum. En um hitt er á flestum bókum ein frásögn rituð, að Kolbrún hin hrafnfirska hafi hvorki gert að lasta kvæðið né lofa; en þá er sveinninn gekk að sofa í úthýsi því þar sem Vermundur frændi hans hýsti snauða menn, illmenni og hunda, þá strýkur hann við rekkjustokki þeirra Hrafnsfjarðarmæðgna; lá húsfreyja við stokk en mærin svaf við þili fyrir ofan hana. Konan biður sveininn nema staðar, eða hversu gamall maður ertu, Þormóður skáld? spyr hún.
Hann segir til aldurs síns, og er sumra mál að þá væri hann fjórtán vetra, en aðrir segja tólf.
Hún grípur þá til og setur skáldið niður hjá sér í rekkj una. Og er það haft fyrir satt að eigi hafi sveinninn fyrr vitað að svo mikil kona væri í veröldinni.
Undur mikið, segir hún, er maður svo ungur hefur í frammi skáldskap við konur, þann hlut er vér kunnum síst brögð í móti: mun og slíkt einsdæmi í veröldinni, að einn sveinstauli geri sér konu að orðfífli; þykir oss konum ærinn ósómi að hafa kvæði af þeim körlum er meira megu en þú. En þó mun í þessu dæmi það lögmál ráða að orð skulu verkum ríkri, og skaltu mig eigi frá þessari stundu forðast mega, og eru hér kvæðalaun mín; mæli eg svo um að nær þú ert orðinn að manni Þormóður, skaltu æ og ævinlega í minn stað koma, hverja för sem þú fer, og þó aldrei nær mér en þá er þú stefndir mér firrst.
Og er konan hafði þessum orðum mælt, lét hún skáldið lausan að sinni.
Þormóði Bessasyni þótti dauflegt heima að föður síns; vandi hann ungur komur sínar þangað sem nokkur gleði var höfð, slátur soðin eða brúðkaup gör eða erfi drukkin og jól haldin, svo og þar er menn voru í fiskiverum eða störfuðu annað saman fjölmennir. Var hann þá til fenginn að skemmta mönnum, því að á Vestfjörðum eru langir vetur og myrkur stór. Þormóður brá snemma á það ráð að yrkja sjálfur þar er kvæðaefni þraut; kunni hann í æsku svo vel að yrkja að menn fundu eigi mun á kvæðum hans og annarra skálda.
Í Vatnsfirði að Vermundar goða var í senn hjónmargt og þrælakostur góður; þangað sóttu og snauðir menn og sekir; orlofsmenn og gestir komu víðsvegar úr fjörðum að telja tölur sínar fyrir Vermundi og þiggja ráð að honum. Þormóður var snemma tíður gestur í Vatnsfirði, þótti honum þar skemmtilegra en heima á Laugabóli, var og aufúsugesturmörgu heimafólki Vermundar þó að hann hefði litlar viðurtektir af húsbóndum; hentu menn gaman að fræðum sveinsins í skála um síðkveldum.
Þar var komin á kynnisleit kona ein úr Jökulfjörðum, Kolbrún að nafni, ásamt dóttur sinni bernskri, er Geirríður hét. Kolbrún var kynjuð úr Noregi; hafði hún borist til Íslands með skipamönnum og ráðist til veturvistar að Vermundar ásamt bónda sínum er þar hafði verið stýrimaður á skipi. Austmaðurinn varð bráðdauður um veturinn, og ætluðu menn að Kolbrún hefði ráðið honum bana. Hún gerðist síðan tíðleikakona Vermundar eigi alllítil um skeið, en þá er goðinn fékk annarrar konu ungrar á gamals aldri, skildist hann við þessa og gaf henni staðfestu þar sem heitir í Hrafnsfirði; er sá fjörður einna eyðilegastur í Jökulfjörðum. Vermundur fékk Kolbrúnu verkþræl austrænan þann er Loðinn hét, að hafa í fylgd sinni; hann var garplegur maður og heldur fáskiptinn, hærður mjög og skeggjaður og loðbrýnn, og leit að jafnaði eigi hátt; en það þóttust nokkrir menn séð hafa að hann var fráneygur sem ormur ef til bar að hann léti upp augu sín. Þær mæðgur fóru jafnan um slægjur í Djúp að vitja fornra kynna, en Loðinn þræll gekk fyrir hestum þeirra. Hann varðveitti og sax gott, er húsfreyja átti; en það var venja hennar að hún tók saxið frá honum er þau komu í mannasoll. Kolbrún var svo kona að fáir voru hennar jafnokar í aflraunum, vaxin þrýstilega og þó vel í andliti, eygð kvenna best, dökk undir brún og þótti kona nokkuð grálynd ef henni líkaði verr, harðlynd við þá menn er henni voru eigi að skapi, en þó einkum ástmenn sína. Af þessum sökum urðu fleiri menn til að glensa við hana en biðja hennar, var og kona eigi fjárauðug.
Einhverju sinni hafði Þormóður þulið lengi fyrir mönnum að verkalokum í skála í Vatnsfirði, voru þar kvæði um ágæta konunga, frægar orustur og mörg drengileg mannvíg. En svo sem oft verður um síðkvöldum þótti mönnum mest til koma að heyra tíðindi af ástum þeim er menn náðu að hafa af skjaldmeyjum í forneskju.
Þá segir einn maður: firn mikil eru það, segir hann, er vér skulum jafnan heyra frá sagt því er Sigrún húsfreyja trað helveg að kyssa Helga ólifðan; ellegar þá er Freyja lagði lær yfir Loka; svo og það er Sigurður fann meyna sofa herklædda á fjallinu, og hafði ristið í skaut niður brynju hennar og sorðið hana áður hún vaknaði; en aldrei verður nýtu mansöngsstefi fram orpið um þær konur sem nú eru mestir skörungar hér um Vestfjörðu. Þætti mér betur hæfa að hlýða kvæði um það er mælt er, að Hrafnsfjarðarhúsfreyja leggi í sæng sína Loðin þræl tvisvar á hverjum misserum, hið fyrra sinn er níu nætur lifa vetrar og hrafnar hafa orpið, og hið síðara að úthallanda sumri, þá er menn hafa hirtar töður sínar.
Margir urðu til að taka þar undir, hver nauðsyn væri að yrkja um svo ágæta húsfreyju sem Kolbrún var hin hrafnfirska; en í þann tíð var skáldskapur mest vanvirða, sú er konum yrði gör, og kallað óhæfuverk að stefja á konu; áttu venslamenn konunnar vígt um málið.
Lítt kann eg til mansöngsgerðar, mælti Þormóður skáld, enda þarfleysa að gera konum hneisu að ósekju.
Skálabúar sögðu að eigi bar nauðsyn til að binda nafn konu í kvæði þótt ort væri, og mátti þó skiljast af.
Kolbrún húsfreyja úr Hrafnsfirði fnæsti við þessum orðræðum, kvað siðu þeirra karla einna að yrkja mansöngva, er eigi mættu nýtast konum með öðrum hætti.
Þormóður mælti: Það hefur sagt mér faðir minn Bessi Halldórsson, að eigi sómi hraustum dreng að yrkja um kvennaástir: eru slíkt kvæði ragmenna einna og dusilmenna þeirra er liggja í eldhúskrókum og sjúga skyrdúsu.
Nú lýkur umtali í skála að Vatnsfirði á því kveldi, og gengu menn til náða.
En á öðru kveldi, þá er menn höfðu snætt í skála, sté Þormóður fram og bað sér hljóðs, kvaðst þá ort hafa kvæði það um Kolbrúnu húsfreyju í Hrafnsfirði, er skálamenn báðust að honum fyrr.
Þá höfðu margir gleymt skopi því er verið hafði hið fyrra kvöld, og varð eigi aftur upp tekið með þeim hug sem þá, höfðu og búist seint til rekkna, sótti svefn á menn af lúa og skyrdrykkju. Þó urðu nokkrir menn til að hlýða kvæðinu, og var lengt nafn skáldsins og var kallaður Þormóður Kolbrúnarskáld. En konur sögðu að hann var þó meir verður hins að heita Kolrössuskáld, mundu þær og jafnan það heiti hafa heldur, er þær heyrði hans getið síðan. Eigi vitu menn framar glöggt hversu það kvæði var kveðið er Þormóður flutti konu þessari á ungum aldri, hefur það verið dregið út í flestum bókum ellegar skafið á brott, mun fyrrum mönnum nokkrum hafa þótt kvæði eigi með öllu við hæfi; líkara þykir og þar hafi meir verið af bernsklegum gáska skjalað en alvöru fulltíða karla, er af þeim rökum kveða, að þeir eru konu unnandi í meinum. En um hitt er á flestum bókum ein frásögn rituð, að Kolbrún hin hrafnfirska hafi hvorki gert að lasta kvæðið né lofa; en þá er sveinninn gekk að sofa í úthýsi því þar sem Vermundur frændi hans hýsti snauða menn, illmenni og hunda, þá strýkur hann við rekkjustokki þeirra Hrafnsfjarðarmæðgna; lá húsfreyja við stokk en mærin svaf við þili fyrir ofan hana. Konan biður sveininn nema staðar, eða hversu gamall maður ertu, Þormóður skáld? spyr hún.
Hann segir til aldurs síns, og er sumra mál að þá væri hann fjórtán vetra, en aðrir segja tólf.
Hún grípur þá til og setur skáldið niður hjá sér í rekkj una. Og er það haft fyrir satt að eigi hafi sveinninn fyrr vitað að svo mikil kona væri í veröldinni.
Undur mikið, segir hún, er maður svo ungur hefur í frammi skáldskap við konur, þann hlut er vér kunnum síst brögð í móti: mun og slíkt einsdæmi í veröldinni, að einn sveinstauli geri sér konu að orðfífli; þykir oss konum ærinn ósómi að hafa kvæði af þeim körlum er meira megu en þú. En þó mun í þessu dæmi það lögmál ráða að orð skulu verkum ríkri, og skaltu mig eigi frá þessari stundu forðast mega, og eru hér kvæðalaun mín; mæli eg svo um að nær þú ert orðinn að manni Þormóður, skaltu æ og ævinlega í minn stað koma, hverja för sem þú fer, og þó aldrei nær mér en þá er þú stefndir mér firrst.
Og er konan hafði þessum orðum mælt, lét hún skáldið lausan að sinni.
Used by permission of Archipelago Books and Forlagid.